Weather Forecasts | Weather Maps | Weather Radar

Sunday, January 27, 2008

Hitt og þetta

Jæja gert ýmislegt síðan síðast (er bara studnum stundum ekki í bloggstuði).

Fór á júdó æfingu! Já bjóst nú aldrei við að ég myndi gera það! En ég verð að mæla með júdó. Það er alveg ótrúlega gaman og erfitt! Þriggjatíma júdóæfing, rosa harðsperrur LENGI á eftir:)

Síðustu viku hefur rignt verulega mikið og það snjóaði m.a.s. uppi í fjöllunum. Þar sem það rignir ekki oft hér þolir campusinn ekki rigningu og allt fer á flot. Frekar ógeðslegt, sérstaklega þar sem ég þarf að hjóla eða labba í skólann á hvejum degi. Mér tókst líka að detta á hjólinu mínu, af því að göturnar eru úr efni sem verður mjög sleipt í rigningu! Smá kollhnís:)

Á fimmtudaginn var mér svo boðið að fara í heimsókn í RAND Corporation and Westside Foodbank útaf Fulbright. Ég ákvað að skella mér bara þrátt fyrir að það væri frekar mikið að gera. Ég leigði bíl með þremur Kínverjum sem ég hafði aldrei hitt áður og við keyrðum saman í fáránlega stórum jeppa til LA. Ég lærði helling um Kína á leiðinni, fullt sem ég hafði aldrei heyrt áður. Í heimsókninni heyrði ég svo allt um misnotkun á öldruðum, hvaða form hún getur tekið og hvað Kalifornía gerir til að sporna við henni. Við heyrðum líka um umferðina í LA og hvað þeir halda að hægt sé að gera til að minnka álagið.

RAND er bæði skóli og stofnun svo við hittum nokkra nemendur sem sögðu að til að vinna fyrir náminu þyrftu þeir að keppa um verkefni 24/7. Venjulegir starfsmenn þyrftu líka að vinna fyrir kaupinu sínu með því að keppast um verkefni innan stofnunarinnar. Ég veit ekki alveg hvort ég myndi vilja vera í svoleiðis vinnuumhverfi, hlýtur að vera mjög stressandi til lengdar.

Í matarbankanum vorum við látin pakka mat í kassa og sortera. E-r verslunarkeðja hafði keypt upp aðra og vildi ekki vörurnar í búðunum. Þeir skófluðu því bara úr hillunum ofan í "fiski"ker svo þar var samankrull af mat, dóti og snyrtivörum! Það var mjög skemmtilegt að gera e-ð svona allt öðruvísi í einn dag:)

Ég fór líka til tannlæknis í vikunni og hún sagði mér frá hinni undranýjung xylitol! Ég varð nú að játa að ég kannaðist aðeins við það;) E-rra hluta vegna er talað um það eins og e-ð alveg nýtt á nálinni hér. Hún sagði mér líka að það hefði verið fundið upp á Íslandi! Ég þorði náttúrulega ekki annað en að segja bara já og amen við því en efast samt stórlega um sannleiksgildi þess. Ég hef ekki hugmynd um hvar xylitol var uppgötvað en er næstum alveg viss um að ég vissi ef það væri íslensk uppfinning;) Við látum sko vita af svoleiðis;)

Thursday, January 17, 2008

Ásdís og fræga fólkið

Já hver haldiði að hafi vinkað mér áðan önnur en Hillary Clinton. Nú og í gær hitti ég friðarnóbelsverðlaunahafann frá árinu 2006. Nú og svo má ekki gleyma eiginhandaráritun sjálfs Arnolds. Maður bara "þekkir" alla þessa stórlaxa;) hehe

Ok þetta eru nú allt pínu ýkjur;) Eiginhandaráritun Arnolds var bara stimpluð á mastersskýrteinið. Ég var bara ein af 1000 áhorfendum í sal á fyrirlestri nóbelsverðlaunahafans og Hillary var nú kannski ekki að vinka mér persónulega og það hefði vissulega verið meira cool ef ég hefði farið á fundinn með henni. Til að komast á fundinn hefði ég hins vegar þurft að bíða í a.m.k. 6klst úti og satt best að segja nennti ég því hvorki né hafði tíma (það var alveg meira en nóg að frjósa úti í 2klst og sjá hana í 20m fjarlægð). Fyndið hvernig múgæsing getur haft áhrif á mann, mér er nefnilega nokkuð sama um hana og ekki vissi ég hver þessi nóbelsverðlaunahafi var fyrr en í gær. Arnold fer hins vegar ekki framhjá neinum;) hehe

Ps. Þetta er 100. færslan mín hérna!

Wednesday, January 16, 2008

Súkkan mín getur greinilega meira en ég hélt;)

Gleðilegt nýtt ár! Veit að þetta kemur seint, en fæðing þessa bloggs tók bara pínu langan tíma;) Ég hef nefnilega ekki mikið að segja, eða kannski hef ég það, en er bara orðin svona vön öllu hér að mér finnst ekkert fréttvænt.

Í gær gerði ég hins vegar svolítið óvenjulegt:) Við ætluðum að spila hokkí en völlurinn var upptekinn. Einum vini mínum leiddist greinilega því hann vildi endilega gera e-ð í staðinn fyrir hokkíið. Það kom svo í ljós að hann á víst svona súkku eins og ég! Já, hún er reyndar án þaks og hliða í baksætinu (s.s. alveg opin!) og á upphækkuðum dekkjum. Við fórum því í e-ð drullusvað að keyra. Ég sver það við fórum torfærur sem ég hélt að enginn bíll gæti komist! Niður 80°brekkur og s.frv. Gott adrenalín kikk!:) Súkkan mín ætti því að geta meira en ég hélt!

Í dag ætla ég svo að fara á fyrirlestur sem einn nóbelsverðlaunahafi heldur. Hann stofnaði banka sem lána litlum fyrirtækjum í þriðja heiminum á mjög litlum vöxtum (ef ég skil þetta rétt, mun líklegast vita meira í kvöld). Þessi banki hefur víst algjörlega gjörbreytt sumum menningarsamfélögum. Þetta er eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við UCSB, maður getur farið á svona áhugaverða fyrirlestra/tónleika yfirleitt frítt eða mjög ódýrt.