Mexíkó
Jæja það hlaut að koma að því, bloggandinn færist yfir:) E-rra hluta vegna er erfitt að finna hann hérna þegar Santa Barbara er bara orðin eins og heima og allt ósköp venjulegt e-ð:) Við fengum ekkert páskafrí frekar en venjulega en svo kom spring break. Þótt það sé nú ekkert sjálfgefið af maður fái frí í spring break þegar maður er bara í rannsóknum ákváðum við (Chris, Steve og Scott) að skella okkur til Mexíkóborgar að heimsækja Lauru:)
Ég hef eiginlega bara heyrt rosalega slæma hluti um borgina (rosaglæpir, ofurmengun, fólksmergð...) en varð algjörlega heilluð. Borgin er sambland af gömlum fallegum húsum og skemmtilegum nýjum húsum. Um alla borg eru skúlptúrar, útimarkaðir og fleira skemmtilegt. Það sem kom mér líka á óvart er hvað Mexíkóar hafa miklu líkari smekk og Íslendingar en Bandaríkjamenn. Þennan takkí stíll Bandaríkjamanna var hvergi að finna:)
Auðvitað eru líka fullt af fátækrahverfum og það skrýtna er að þau eru öll uppi í fjöllunum (a.m.k. hérna í Santa Barbara þykir voða fínt að búa uppi í fjöllunum). E-rra hluta vegna finnst mér þau líka heillandi! Fólkið er líka svo hugmyndaríkt að finna sér leið til að vinna inn peninga, þarna vann fólk við að gera hluti sem mér hafði aldrei dottið í hug að e-r gæti unnið við:) Fólk gekk á milli bíla á rauðu ljósi og seldi hina ýmsu hluti (ég sá líka gaur joggle með eld á rauðuljósi), tók þóknun fyrir að hjálpa fólki að bakka út úr stæði (sem þarf þar, af því að umferðin er ansi skrautleg) o.s.frv.
Umferðin er svo annar kapituli, þrátt fyrir að virðast mjög kaótísk virtust ekkert verða fleiri slys þar en annars staðar. Skil milli akgreina eru bara skraut (og allir taka fram úr á heilli línu, jafnvel þótt þeir sjái bíl á móti), ljós líka (maður flautar bara þegar maður fer yfir hvort sem það er á rauðu eða grænu) og helst verður maður að flauta á 30s fresti:) Ég held líka að um 30% bílaflota Mexíkóborgar séu bjöllur!:)
Ég hef nú ferðast tiltölulega víða og yfirleitt kaupi ég ekki mikið af mynjagripum en núna varð ég alveg heilluð og keypti hina ótrúlegustu hluti (endalaust mikið af skartgripum, leirflautur, útskorin hrafntinna, ótrulega flott skartgripaskrín o. s. frv.). Þetta var allt líka svo ódýrt!:)
Við fórum líka til borgarinnar Oaxaca. Það er líka ótrúlega falleg borg. Við gistum á hótel Súkkulaði sem var ótrúlega ódýrt og fínt hótel, að því undanskildu að þegar við vöknuðum daginn eftir mætti helst halda að það rynni líka súkkulaði í vatnspípunum! Frekar ógeðslegt, sérstaklega þar sem strákarnir föttuðu það ekki fyrr en þeir höfðu farið í sturtu;) hehe
Eitt það ótrúlegasta við þessa borg er hvað fólkið er lágvaxið. Vinkona mín er 153cm og mamma hennar sem er úr sama héraði og borgin er 147cm og þær teljast bara í meðalhæð! Flestar konur úti á götu náðu mér upp að rifbeinum og flestir karla náu mér upp að öxlum. Við stóðum því verulega út úr þegar við gengum um götur borgarinnar.
Við gerðum líka ýmislegt annað, fórum að sjá Teotihuacan píramídana, Frida Khalo safn, borðuðum engisprettur og orma, og leituðum að þónokkrum Geocachum (sjá geocach.com) svo fátt eitt sé nefnt. Maturinn (fyrir utan engispretturnar kannski;)) var himneskur, ekkert líkur mexíkóskum mat hér!
Ég var sko alls ekki tilbúin að fara heim en svona er lífið:) Ég fer sko pottþétt þangað aftur í bráð!:D Myndir fást á facebook, ég er bara alltof löt að setja þær inn á báða staði (tölvan mín er líka e-ð hæg núna, kannski ef ég hef rosamikinn frítíma bráðum, hehe)